6.9.11

Yfirstrikaðir staðir 19



Ferðalok

Ástarstjörnu 
yfir Hraundranga 
skýla næturský; 
hló hún á himni, 
hryggur þráir sveinn 
í djúpum dali.


Veit ég hvar von öll 
og veröld mín 
glædd er guðs loga. 
Hlekki brýt ég hugar 
og heilum mér fleygi 
faðm þinn í.

Sökkvi eg mér 
og sé ég í sálu þér 
og lífi þínu lifi; 
andartak sérhvert, 
sem ann þér guð, 
finn ég í heitu hjarta.


Tíndum við á fjalli, 
tvö vorum saman, 
blóm í hárri hlíð; 
knýtti ég kerfi 
og í kjöltu þér lagði 
ljúfar gjafir.


Hlóðstu mér að höfði 
hringum ilmandi 
bjartra blágrasa, 
einn af öðrum, 
og að öllu dáðist, 
og greipst þá aftur af.


Hlógum við á heiði, 
himinn glaðnaði 
fagur á fjallabrún; 
alls yndi 
þótti mér ekki vera 
utan voru lífi lifa.


Grétu þá í lautu 
góðir blómálfar, 
skilnað okkarn skildu; 
dögg það við hugðum 
og dropa kalda kysstum 
úr krossgrasi.


Hélt ég þér á hesti 
í hörðum straumi, 
og fann til fullnustu, 
blómknapp þann gæti 
ég borið og varið 
öll yfir æviskeið.


Greiddi ég þér lokka 
við Galtará 
vel og vandlega; 
brosa blómvarir, 
blika sjónstjörnur, 
roðnar heitur hlýr.


Fjær er nú fagri 
fylgd þinni 
sveinn í djúpum dali; 
ástarstjarna yfir Hraundranga 
skín á bak við ský. 


Háa skilur hnetti himingeimur, 
blað skilur bakka og egg; 
en anda sem unnast   
fær aldregi 
eilífð að skilið.

Jónas Hallgrímsson

1 comment:

  1. 1. Ferðasaga í myndum. Taktu eina ljósmynd fyrir hvert erindi í ljóðinu hér að ofan. Þetta er a.m.k. þriggja manna verkefni. Einn til að leika Jónas, annar ástina hans og þriðji tekur myndir. Leitið að bakgrunni sem passar við erindið.

    2. Semdu ljóðið aftur með nútímaorðfæri. Engar reglur gilda.

    3. Rökfærsla: „Aðeins þeir hugrökku krækja í bestu bitana þegar ástin er annarsvegar.“ Ræddu og taktu afstöðu.

    4. Tónlist: Semdu lag við ljóðið hér að ofan (a.m.k. 2 erindi). Taktu það upp og settu á vefinn þinn.

    5. Fróðleikur: Hver var Jónas?

    6. Annað. Hvað viltu gera?

    ReplyDelete