7.9.11

Yfirstrikaðir staðir 32Já áðan minntist ég á það að stundum er manni algjörlega nauðsynlegt að synda á móti straumnum og elta tilfinningar sínar og innsæi. Ég minntist líka á manninn minn. Það er nefnilega staðreynd, eins og sum ykkar vita, að ég er giftur öðrum karlmanni og við eigum sitthvort barnið sem við ölum upp saman og í samvinnu við mæðurnar. Við erum óvenjuleg en stórskemmtileg fjölskylda í vesturbænum. Höldum með KR og Liverpool og förum í ferðalög í sólina til Spánar eða í rigningu í Borgarfjörðinn með tjaldið okkar á sumrin. Fyrir nokkrum árum síðan hefði það að ég fjallaði um manninn minn og börnin mín ekki vakið mikla hrifningu á samkomu sem þessari. Það hefði ekki þótt við hæfi að tala um samkynhneigðar fjölskyldur við fermingu unglinga. Sem betur fer hafa hlutirnir breyst alveg svakalega í samfélagi okkar og umræðan er opnari og velviljaðri mismunandi þjóðfélagshópum. Ég er búinn að fara út um allt og ræða málefni fjölskylda eins og minnar. Það hefur verið mjög gefandi reynsla, kannski ekki síst vegna þess að við umræðuna hefur losnað um hömlur, fólk sér að lífið er ekki bara svart og hvítt. En hvers vegna er ég að tala um þetta við ykkur hér í dag? Jú vegna þess að ég vil geta sagt aftur: Það er enginn eins – Við erum öll öðruvísi og því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því, því betra. Við búum í góðu samfélagi en við getum alltaf gert það betra og ég veit þegar ég horfi á ykkur að framtíðin er björt. Mér hefur þótt sérstaklega gaman að ræða þessi mál við krakka eins og ykkur, hvort sem þau eru í efra stigi grunnskóla eða í menntaskólum. Það hefur verið svo gaman að sjá hvað þetta fer allt að verða lítið mál. Umræða um samkynhneigð hættir að vera hættuleg og eins og ég sagði áðan þá fer það sem við vitum að verða okkur vopn.


Felix Bergsson: Ávarp til fermingarbarna

1 comment:

 1. 1. Ást. Ræður maður hverjum maður verður ástfangin/n af eða er gerist það bara? Ræddu það.

  2. Hönnun: Gerðu teikningu að skólabókasafni eins og þú vilt hafa það, eða gerðu líkan.

  3. Rökfærsla: „Það eru engir eins.“ Ræddu og taktu afstöðu.

  4. Rannsókn á viðhorfum: Finnst fólki í dag í lagi að samkynhneigðir eigi saman börn. Spyrjuð fólk og kynnið niðurstöðurnar.

  5. Ljóð: Semdu ljóð um það að vera öðruvísi en aðrir á einhvern hátt.

  6. Annað. Hvað viltu gera?

  ReplyDelete