17.9.11

Sagnorð


Orðið er sagnorð.


Sagnorð lýsa athöfnum og eru einu orðin sem tíðbeygjast.Dæmi: hlaupa, detta, elda, elska, tjá, opna...

Orðflokkar > Sagnorð Greina annað orð.

Ekki fallorð


Orðið er ekki fallorð. Það getur verið sögn eða einn af fimm flokkum smáorða.

Veistu hvaða orðflokki það tilheyrir?

Ef þú ert óviss getur þú spurt þig:

Tíðbeygist orðið?


Ég ____________ í dag en ég ___________ í gær.

Er orðið skrifað öðruvísi á fyrra strikinu en því seinna? Þú getur líka spurt þig: „Er hægt að setja „að“ fyrir framan orðið?“

Dæmi:

Að detta, að strauja, að klífa, að hrapa, að leigja, að syngja.


                                          NEI

Ekki lýsingarorðOrðið er ekki lýsingarorð. Lýsingarorð lýsa fyrirbærum. Aðaleinkenni þeirra er að þau stigbreytast.  Þá eru eftir tveir flokkar:


Nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð, greinir.
Veistu hvaða orðflokki það tilheyrir?

Ef þú ert óviss getur þú spurt þig:Er þetta orðið „hinn,“ „hin“ eða „hið“ og stendur með öðru fallorði og nafnorði?


Dæmi: 


Hinn mikli maður.
Hin stóra gjá.
Hið góða barn.
Hið fyrsta bros.


Athugaðu sérstaklega að hér er ekki verið að meina orðið hinn í merkingunni: „Ekki á morgun heldur hinn“ eða „Það var ekki þessi úlpa, það var hin.“ Ef orðið er þannig áttu að smella á nei hér að neðan.


                                          NEI

Ekki töluorð


Orðið er ekki töluorð. Töluorð eru nöfn á tölum eða staða í röð (t.d. sjöundi).


Þá eru eftir þrír flokkar:


Nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð, greinir.
Veistu hvaða orðflokki það tilheyrir?

Ef þú ert óviss getur þú spurt þig:Stigbreytist orðið?


Dæmi: 


Stór - stærri - stærstur, 
góður - betri - bestur, 
hlý - hlýrri - hlýjust.
                                          NEI

Ekki nafnorð

Orðið er ekki nafnorð. Nafnorð eru annaðhvort sérnöfn (og skrifuð með stórum staf eða þannig að þau bæta við sig greini).


Þá eru eftir fjórir flokkar:


Nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð, greinir.
Veistu hvaða orðflokki það tilheyrir?

Ef þú ert óviss getur þú spurt þig:

Er orðið tala eða staða í röð?Dæmi: Einn, 1925, sautjánhundruð, ellefta, sjöunda, fimm.

                                         NEI

Ekki sérnafn


Orðið er ekki sérnafn. Sérnöfn eru nafnorð. En það getur samt verið nafnorð eða einhver hinna flokkanna.

Nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð, greinir.

Veistu hvaða orðflokki það tilheyrir?

Ef þú ert óviss getur þú spurt þig:

Er hægt að bæta greini við orðið?

Dæmi: Hestur – hesturinn, epli – eplið, skífa – skífan

                                         NEI

Fallorð

Orðið er fallorð. Þá koma fimm flokkar til greina.

Nafnorð, lýsingarorð, fornöfn, töluorð, greinir.

Veistu hvaða orðflokki það tilheyrir?

Ef þú ert óviss getur þú spurt þig:

Er orðið nafn á einhverju/m (skrifað með stórum staf)?

                                         NEI

Orðflokkagreining

Fallbeygist orðið?

Hér er   __________
Um       __________
Frá       __________
Til       __________


                                           NEI

Nafnorð

Orðið er nafnorð.
Nafnorð eru ýmist sérnöfn eða samnöfn. Samnöfn bæta við sig greini en sérnöfn eru nöfn á tilteknum einstaklingum/fyrirbærum og eru skrifuð með stórum staf.
Dæmi: hugsun, eðli, Sigga, ótti, Kanada.


Orðflokkar > Fallorð > NafnorðGreina annað orð.

Fornöfn

Orðið er fornafn.
Fornöfn eru orð sem oft eru notuð eru í stað nafna eða til að afmarka þau. Það er þó ekki algilt.

Dæmi: Sumir, allir, hver, hann, ég.


Orðflokkar > Fallorð > LýsingarorðGreina annað orð.

Lýsingarorð

Orðið er lýsingarorð.
Lýsingarorð eru einu orðin sem stigbreytast.

Dæmi: Stór - stærri - stærstur


Orðflokkar > Fallorð > LýsingarorðGreina annað orð.

Töluorð

Orðið er töluorð.
Töluorð eru ýmist frumtölur eða raðtölur.

Dæmi um frumtölu: ellefu
Dæmi um raðtölu: ellefta

Orðflokkar > Fallorð > TöluorðGreina annað orð.

Greinir

Orðið er greinir.

Í íslensku er aðeins til ákveðinn greinir. Hann er ýmist viðskeyttur eða stakur.

Dæmi um viðskeyttan greini: hestur-inn
Dæmi um stakan greini: Hinn stóri hestur.

Orðflokkar > Fallorð > Greinir

8.9.11

Yfirstrikaðir staðir 36

Auður er horfin, enn og aftur.


,,Jórunn, farðu og finndu hana,“ segir Yngveldur. ,,Þú veist hvar hún heldur sig.“ 


Hún segir þetta ásakandi, eins og þær séu saman í ráðum um að vera henni til armæðu. Jórunn fer reyndar nærri um það hvar Auður er. Einhvern tímann síðla nætur smokraði hún sér fram úr setinu sem þær deila og hvíslaði því í eyra hennar að hún ætlaði fram á Bjarghöfða að horfa eftir sæfólki í víkinni, það er helst á ferli í flæðarmálinu í birtingu , kannski sést til skipa, hún myndi koma heim í bítið með skelfisk. Jórunn hefði víst átt að segja eitthvað til að stöðva hana en tal Auðar um sæfólkið skýtur henni alltaf skelk í bringu og hún sneri sér til veggjar og hélt áfram að sofa, það hefði ekki verið til neins hvort sem var. Auður stenst ekki sumarnóttina og kemur og fer eins og henni sjálfri sýnist, finnst ekki nema hún vilji það og skilar sér alltaf heim um síðir til þess að taka við hirtingunni sem jafnan bíður hennar, hvort sem hún kemur með skeljar eða ekki því það er ambáttarverk að safna mararhettum.

Vilborg Davíðsdóttir: Auður

Yfirstrikaðir staðir 35
Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsíngum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vita að okkur sé nokkur vorkun í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspillt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við ísland að því er snertir spillingu lands af mannavöldum. 

Menn komu hér upphaflega að ósnortnu heiðalandi sem var þéttvaxið viðkvæmum norðurhjaragróðri, lýngi og kjarri, og sumstaðar hefur nálgast að vera skógland, hér var líka gnægð smárra blómjurta, og mýrar vaxnar háu grasi, sefi og stör, morandi af smákvikindum allskonar og drógu að sér fugla svipað og Þjórsárver gera enn þann dag í dag. 

Mart bendir til þess að fólk er hér settist að hafi litið á náttúru Íslands einsog bráð sem þarna var búið að hremma. Skynbragð á fegurð lands var ekki til í þessu fólki. Slíkt kom ekki til skjalanna fyren þúsund árum eftir að híngað barst fólk. Á þrettándu öld skrifar Snorri Sturluson bók um eitt fegursta land heimsins, Noreg, rúmt reiknað 1000 blaðsíður, án þess séð verði að höfundi hafi verið kunn, aukin heldur meir, sú hugmynd að fallegt sé í Noregi. Orðið fagur á íslensku þýddi reyndar bjartur áður fyrri. Sú hugmynd að náttúran sé fögur er ekki runnin frá sveitamönnum, heldur fólki úr stórborgum seinni tíma, og náði loks til okkar íslendínga úr Þýskalandi gegnum Danmörku í tíð afa okkar. Náttúra verður auðvitað ekki falleg nema í samanburði við eitthvað annað. Ef ekki er til nema sveit er náttúran ekki falleg. „Óspilt náttúra" er því aðeins falleg nú á dögum að hún sé borin saman við borgir þángað sem menn hafa flúið af því sveitin veitti þeim ónóga lífsafkomu, og búa þar nú við vaxandi óhægindi, sumstaðar einsog í víti.

Halldór Laxness: Hernaðurinn gegn landinu

Yfirstrikaðir staðir 34Smelltu


Kristian Guttesen

Yfirstrikaðir staðir 33

Síðastliðið sumar var ég á ferðalagi í útlöndum með hópi fólks – ungum og gömlum. Einn daginn stóð til að fara með lyftu upp á efstu hæð í einu hæsta húsí heims. Þá kom til mín einn ferðalanganna – hann var 6 ára – og spurði mig hvort ég gæti orðið eftir með honum á meðan hinir færu með lyftunni upp – því hann þyrði alls ekki í lyftur – hann væri svo hræðilega hræddur við þær. Ég reyndi að tala hann til – og foreldrar hans reyndu líka að tala hann til – en allt kom fyrir ekki – svo ég varð við ósk hans um að bíða niðri með honum. Þegar svo að því kom að fólkið tíndist inn í lyftuna hvert af öðru – og lyftudyrnar voru við það að lokast þá skaust stráksi fram – og inn í lyftuna – en eftir stóð ég með spurn í augum. Hvað hafði gerst?
Fólkið kom aftur úr lyftuferðalaginu  og þá spurði ég strákinn hvað hefði eiginlega gerst, hvað hann hefði verið að hugsa –en hann sagði:
Það stóð utan á innkaupapokanum sem við fengum í búðinni í gær að við ættum -á hverjum degi – að gera eitthvað sem við erum hrædd við. Og ég er svo hræddur við lyftur – þessvegna fór ég í lyftuna með hinum. Drengurinn, sem nú er orðinn 7 ára, fylgir þessari reglu að gera eitthvað sem hann er einmitt hræddur við, kannski ekki á hverjum degi, en nógu oft til að gleyma ekki reglunni. Hann er hættur að vera hræddur við ýmislegt sem skelfdi hann áður – en það sem er mikilvægara, hann veit að ef hann verður hræddur þá getur hann sjálfur gert ýmislegt til að sigrast á óttanum.
Ef við æfum okkur þá verðum við flínk – ef við æfum okkur í hugrekki þá verðum við hugrökk. Ef við erum hugrökk þá þorum við að vera við sjálf, jafnvel þótt það þýði að við erum ekki eins og hinir og jafnvel þótt það þýði að einhverjum finnist það asnalegt.


Sigrún Sveinbjörnsdóttir

7.9.11

Yfirstrikaðir staðir 32Já áðan minntist ég á það að stundum er manni algjörlega nauðsynlegt að synda á móti straumnum og elta tilfinningar sínar og innsæi. Ég minntist líka á manninn minn. Það er nefnilega staðreynd, eins og sum ykkar vita, að ég er giftur öðrum karlmanni og við eigum sitthvort barnið sem við ölum upp saman og í samvinnu við mæðurnar. Við erum óvenjuleg en stórskemmtileg fjölskylda í vesturbænum. Höldum með KR og Liverpool og förum í ferðalög í sólina til Spánar eða í rigningu í Borgarfjörðinn með tjaldið okkar á sumrin. Fyrir nokkrum árum síðan hefði það að ég fjallaði um manninn minn og börnin mín ekki vakið mikla hrifningu á samkomu sem þessari. Það hefði ekki þótt við hæfi að tala um samkynhneigðar fjölskyldur við fermingu unglinga. Sem betur fer hafa hlutirnir breyst alveg svakalega í samfélagi okkar og umræðan er opnari og velviljaðri mismunandi þjóðfélagshópum. Ég er búinn að fara út um allt og ræða málefni fjölskylda eins og minnar. Það hefur verið mjög gefandi reynsla, kannski ekki síst vegna þess að við umræðuna hefur losnað um hömlur, fólk sér að lífið er ekki bara svart og hvítt. En hvers vegna er ég að tala um þetta við ykkur hér í dag? Jú vegna þess að ég vil geta sagt aftur: Það er enginn eins – Við erum öll öðruvísi og því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því, því betra. Við búum í góðu samfélagi en við getum alltaf gert það betra og ég veit þegar ég horfi á ykkur að framtíðin er björt. Mér hefur þótt sérstaklega gaman að ræða þessi mál við krakka eins og ykkur, hvort sem þau eru í efra stigi grunnskóla eða í menntaskólum. Það hefur verið svo gaman að sjá hvað þetta fer allt að verða lítið mál. Umræða um samkynhneigð hættir að vera hættuleg og eins og ég sagði áðan þá fer það sem við vitum að verða okkur vopn.


Felix Bergsson: Ávarp til fermingarbarna

Yfirstrikaðir staðir 31


ÁST

Sólin brennir nóttina, 
og nóttin slökkvir dag; 
þú ert athvarf mitt fyrir 
og eftir sólarlag. 

 Þú ert yndi mitt áður 
og eftir að dagur rís, 
svölun í sumarsins eldi 
og sólbráð á vetrarins ís. 

Svali á sumardögum 
og sólskin um vetrarnótt, 
þögn í seiðandi solli 
og söngur, ef allt er hljótt. 

Söngur í þöglum skógum 
og þögn í borganna dyn, 
þú gafst mér jörðina og grasið 
og guð á himnum að vin. 

Þú gafst mér skýin og fjöllin 
og guð til að styrkja mig. 
Eg fann ei, hvað lífið var fagurt, 
fyrr en eg elskaði þig. 

Eg fæddist til ljóssins og lífsins, 
er lærði eg að unna þér, 
og ást mín fær ekki fölnað 
fyrr en með sjálfum mér. 

Ást mín fær aldrei fölnað, 
því eilíft líf mér hún gaf. 
Aldirnar hrynja sem öldur 
um endalaust tímans haf. 

Aldir og andartök hrynja 
með undursamlegum nið; 
það er ekkert í heiminum öllum 
nema eilífðin, guð — og við.

Sigurður Nordal

Yfirstrikaðir staðir 4Gegnumsýrður af heilögum innblæstri sem blóðmörskeppur í blásteinslegi, titrandi af hamstola lyftingu, vaggandi af ómþýðum englaröddum, er til mín hljóma gegnum gengishrun og öreigahróp vorrar vesölu jarðar, tvíhendi ég pennastöngina þér til dýrðar, þér til eilífrar dýrðar og vegsömunar, sáluhjálpar og syndakvittunar, hvar af þú ljómar og forklárast eins og sólbakaður saltfiskur frammi fyrir lambsins stól.


Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru

Yfirskyggðir staðir 30

Pappírshjörtu

 Ég skar út fullt af pappírshjörtum
 og hengdi uppí loftið á herberginu þínu 
breiddi síðan yfir mig skítugt lak 
og sveimaði kringum þig þar sem þú svafst
 eins og fallegasta líkið í veröldinni
 þuldi síðan ljóðið sem ég samdi fyrir þig
 og þú sagðir að væri drasl helvítis fíflið þitt 
en hvað um það við skulum sauma okkur saman á morgum 
og þykjast vera síamstvíburar. 


 Þórdís Björnsdóttir: Úr Ást og appelsínum

Yfirskyggðir staðir 29


Hugleikur Dagsson

Yfirstrikaðir staðir 28

Hugleikur Dagsson

Yfirstrikaðir staðir 27

Í Kattholti í Hlynsskógum í Smálöndunum áttu Emil og Ída  litla systir hans heima. Hefur þú nokkurn tíma heyrt talað um þau? Sé svo, þá veistu að Emil gerði skammarstrik á hverjum einasta degi og mátti dúsa í smíðaskemmunni  fyrir það. Pabbi hans hélt að þannig myndi Emil venjast af því að gera skammarstrik. En þar skjátlaðist honum. Emil fannst bara gaman í smíðaskemmunni.Astrid Lindgren: Þegar Ída ætlaði að gera skammarstrik. Vilborg Dagbjartsdóttir þýddi.

Yfirstrikaðir staðir 26

Það er til fullt af fólki sem vill skipta sér af því hvernig unglingsstelpur eigi að klæða sig. Einnig skapar tískan og menningin samfélagslegan þrýsting á það hvernig stelpur eiga að klæða sig hverju sinni. Oftast snýr gagnrýnin að því að þær séu of lítið klæddar t.d. í of flegnum bol eða of stuttu pilsi. Aðrir reyna að selja þeim allskyns óþarfa eða tískuvarning til þess eins að græða. Enn öðrum finnst þær eiga að vera í sem minnstu. Fyrirgefið, en hverjum kemur það eiginlega við öðrum en stelpunum sjálfum? Er þetta ekki sambærilegt við samfélög þar sem konur eru skikkaðar til þess að ganga með slæður, í kuflum eða bannað að klæðast fötum þar sem sést í ökkla þeirra? Stelpur eiga að fá að ráða því sjálfar hvernig þær klæða sig. Ráðgjöf getur verið góð en það á að skipta mestu máli hvernig þér líður í fötunum. Ef þú fílar að ganga í stuttu pilsi eða kufli, ef því er að skipta, þá gerir þú það auðvitað.

Kristín Tómasdóttir og Þóra Tómasdóttir: Stelpur!

Yfirskyggðir staðir 25Elds er þörf 
þeim er inn er kominn 
og á kné kalinn. 
Matar og voða er manni þörf, 
þeim er hefir um fjall farið. 

Vatns er þörf 
þeim er til verðar kemur, 
þerru og þjóðlaðar, 
góðs um æðis 
ef sér geta mætti 
orðs og endurþögu. 

Vits er þörf 
þeim er víða ratar. 
Dælt er heima hvað. 
Að augabragði verður 
sá er ekki kann 
og með snotrum situr.

Yfirstrikaðir staðir 24

A Fleeting SummerYfirstrikaðir staðir 23Ég var einn heima og þá var bankað. Mér varð starsýnt á bilaðan hurðarhúninn, sleikti á mér fingurgómana og strauk síðustu bita eggjakökunnar af disknum, saug bitana af fingrunum. Ég stóð á fætur og lagðist á hnén við dyrnar. Stakk sleiktum fingurgómunum í gegnum bréfalúguna og leit út.


„Halló?“ sagði ég í gegnum bréfalúguna.

„Ha-alló?“ sagði bláklætt karlmannsklof dálítið undrandi á móti. „Ég er með póst fyrir Halldór Sigurðsson.“

„Já. Það er ég“, svaraði ég karlmannsklofinu. „Ég er herra Sigurðsson.“ Ég nuddaði hnjánum við parketið, eins og til að virðast tvístígandi. Bréfalúgan var úr glampandi stáli með hvössum köntum sem mætti skera sig á með góðum vilja.

„Ef þú vildir vera svo vænn að opna fyrir mér þá skal ég láta þig fá póstinn. Mér sýnist þetta vera bók.“

Ég hikaði. Ef ég útskýrði fyrir honum að ég væri læstur inni og væri ekki að gera neitt í því – og það þó ég væri orðinn alltof seinn – þá héldi hann kannski að ég væri eitthvað skrítinn. „Kemst pakkinn ekki í gegnum bréfalúguna?“ sagði ég.

Hann slengdi pakkanum af fullkomnu metnaðarleysi í bréfalúguna, bankaði honum í hurðina. „Nei, það held ég ekki“, sagði hann svo með klofinu. Mér gramdist að hann skildi ekki reyna. Dró til mín fingurna svo bréfalúgan lokaðist. Gretti mig og klóraði mér í lærin með báðum höndum, krepptum hnúum. Spratt svo upp bréfalúgunni að nýju og sagði:


„Viltu ekki reyna?“ 


Hann var snöggur til svars og sagði pirraður: „Vilt þú ekki bara opna?“

„Ég myndi helst vilja að þú reyndir fyrst að koma pakkanum í gegnum bréfalúguna“, sagði ég.

„Þú þarft að borga sendingarkostnað fyrir þetta“, sagði hann.

„Hefurðu áhyggjur af því að debetkortið mitt komist ekki í gegnum bréfalúguna?“

„Borgaðu fyrst. Þá skal ég reyna að koma pakkanum í gegn.“ 


„Jæja þá. Augnablik.“ 


Ég lét aftur bréfalúguna og stóð á fætur í einu andvarpi. Að hurðin skyldi aldrei opna fyrir mér var með því undarlegasta sem ég hafði reynt þegar hér var komið í lífi mínu en ég er ekki viss um að ég hafi áttað mig á því. Ekki fyllilega í öllu falli. Ég var svo innhverfur að veröldin átti erfitt með að komast að í hugsunum mínum.


Jakkinn minn hékk í fatahenginu og í honum var debetkortið mitt. Í leðurveski ásamt líffæragjafarkorti, sundlaugarkorti og kreditkorti sem var löngu útrunnið þó ekki hefði ég enn greitt af síðustu skuldunum.


„Hvað kostar þetta mikið?“, spurði ég þegar ég var aftur kominn á hnén við bréfalúguna.


„Uhh ...“ sagði bréfberaklofið og fletti einhverjum pappírum „Áttahundraðogsextíu krónur.“


„Hvað er eiginlega í pakkanum?“, sagði ég rétt í þá mund sem ég var að fara að renna kortinu mínu í gegnum glampandi lúguna.


„Bók, held ég“, svaraði klofið.


„Já, þú varst búinn að segja það“, sagði ég. „En hvaða bók er þetta, hver er að senda mér þetta. Ég man ekki til þess að hafa búist við bók í dag.“


„Þetta er frá Amazon.“ 


„Netbókabúðinni?“ 


„Já, en ekki hvað?“ 


„Nei, bara“, sagði ég og yppti öxlum svo hann sá ekki til. „Bara vera viss.“ Svo rétti ég honum debetkortið. 


Pakkinn komst auðvitað ekki í gegn. Hann var annað hvort of stór eða bréfalúgan of lítil. Við bréfberinn vorum ráðþrota.

„Hvað viltu að ég geri?“, sagði bréfberinn. 


„Ég vil þú komir pakkanum í gegnum bréfalúguna“, svaraði ég. 


„Geturðu ekki bara opnað dyrnar?“ 


„Nei. Dyrnar verða lokaðar.“ „Hvaða fíflalæti eru þetta? Ég hef fleira að gera í dag en að sinna dyntunum í þér.“ 


Ég fékk það á tilfinninguna að hann væri að tala við fleiri en mig.
Að hann væri jafnvel almennt þreyttur á að sinna dyntum í fólki, honum þætti hann sýna meðborgurum sínum – almennt – mun meira umburðarlyndi en þeir áttu skilið. Kannski átti hann einhvern sér nákominn sem misnotaði góðmennsku hans með reglulegum hætti.

„Ég myndi glaður vilja vera svo vænn, það er ekki það. Treystu mér bara þegar ég segi þér að það er ekki góð hugmynd að opna þessar dyr.“


Eiríkur Örn Norðdahl: Eitur fyrir byrjendur
Myndina af Eiríki tók Aino Huovio

6.9.11

Yfirstrikaðir staðir 22


Mamma ætlar að sofna 

Sestu hérna hjá mér systir mín góð 
í kvöld skulum við vera kyrrlát og hljóð.  
Í kvöld skulum við vera kyrrlát af því, 
að mamma ætlar að sofna rökkrinu í.

 
Mamma ætlar að sofna,
 og mamma er svo þreytt.  
Og sumir eiga sorgir sem svefninn getur eytt. 
Sumir eiga sorgir og sumir eiga þrá, 
sem aðeins í draumheimum uppfyllast má. 
  
Í kvöld skulum við vera kyrrlát og hljóð,  
mamma ætlar að sofna systir mín góð.
Davíð Stefánsson 

Yfirstrikaðir staðir 21


Kínverskar soðbökur

300.000.000 matskeiðar af feiti 
1.500.000.000 bollar af hveiti 
2.000.000.000 teskeiðar af natróni 
750.000.000 teskeiðar af salti 
750.000.000 bollar af mjólk 
Blandið feitinni við hveitið, natrónið og saltið þar til deigið myndar fína mylsnu. Hrærið mjólkinni saman við. Látið deigið drjúpa úr matskeið niður á heitt kjöt eða grænmeti í sjóðandi heitri kássu (látið ekki drjúpa beint í vökvann). Sjóðið á opinni pönnu í tíu mínútur. Setjið lokið á og sjóðið í 10 mínútur í viðbót. Úr þessu ættuð þið að fá 800.000.000 til 1.000.000.000 soðbökur.


Mike Topp. Þýðing eftir Eirík Örn Norðdahl

Yfirstrikaðir staðir 20


Horfðu

Yfirstrikaðir staðir 19Ferðalok

Ástarstjörnu 
yfir Hraundranga 
skýla næturský; 
hló hún á himni, 
hryggur þráir sveinn 
í djúpum dali.


Veit ég hvar von öll 
og veröld mín 
glædd er guðs loga. 
Hlekki brýt ég hugar 
og heilum mér fleygi 
faðm þinn í.

Sökkvi eg mér 
og sé ég í sálu þér 
og lífi þínu lifi; 
andartak sérhvert, 
sem ann þér guð, 
finn ég í heitu hjarta.


Tíndum við á fjalli, 
tvö vorum saman, 
blóm í hárri hlíð; 
knýtti ég kerfi 
og í kjöltu þér lagði 
ljúfar gjafir.


Hlóðstu mér að höfði 
hringum ilmandi 
bjartra blágrasa, 
einn af öðrum, 
og að öllu dáðist, 
og greipst þá aftur af.


Hlógum við á heiði, 
himinn glaðnaði 
fagur á fjallabrún; 
alls yndi 
þótti mér ekki vera 
utan voru lífi lifa.


Grétu þá í lautu 
góðir blómálfar, 
skilnað okkarn skildu; 
dögg það við hugðum 
og dropa kalda kysstum 
úr krossgrasi.


Hélt ég þér á hesti 
í hörðum straumi, 
og fann til fullnustu, 
blómknapp þann gæti 
ég borið og varið 
öll yfir æviskeið.


Greiddi ég þér lokka 
við Galtará 
vel og vandlega; 
brosa blómvarir, 
blika sjónstjörnur, 
roðnar heitur hlýr.


Fjær er nú fagri 
fylgd þinni 
sveinn í djúpum dali; 
ástarstjarna yfir Hraundranga 
skín á bak við ský. 


Háa skilur hnetti himingeimur, 
blað skilur bakka og egg; 
en anda sem unnast   
fær aldregi 
eilífð að skilið.

Jónas Hallgrímsson

Yfirstrikaðir staðir 18

Smelltu


Yfirstrikaðir staðir 17
afi

og þú hafðir lagt vangann 
á moggann


og fallegu brúnu augun þín 
voru hálfopin


líkt og þú vildir segja 
ég er svo þreyttur

Hildur Lilliendahl

Yfirstrikaðir staðir 15
Hvað þarf til að skáldskapur sé spennandi? 


 Einhver innri átök. Það þarf hvoru tveggja að koma til: Einhver tæknileg geta, og svo að fólk hafi virkilega þörf fyrir að skrifa. Maður horfir upp á miðaldra höfunda, prósahöfunda frekar en ljóðskáld (það eru svo margir sem hætta að skrifa ljóð), og þeir eru orðnir ógeðslega þjálfaðir í að skrifa. Það rennur kanski út úr þeim flottur og fínpússaður texti, öllu er mjög vel pakkaðinn, en það ekkert spennandi eða nýtt að gerast í efniviðnum. Maður verður að vera sjálfsgagnrýninn og skora á sjálfan sig - tala ekki nema maður hafi eitthvað að segja.

Kristín Svava Tómasdóttir 

Yfirstrikaðir staðir 16

Smelltu

Yfirstrikaðir staðir 14Stjórnarskrá Ælendinga

Allir eru asnar nema Ælendingar 
Allt er öðrum að kenna. 
Enginn er klókari, betri eða vitrari en Ælendingur. 
Ælendingur má gera og segja það sem honum sýnist þegar honum sýnist eins og honum sýnist. 
Hver sá er gerir eitthvað annað en það sem Ælendingar vilja, eða gerir hlutina öðruvísi en Ælendingar kjósa, hefur gert sig seka(n) um refsiverða háttsemi og gildir þá einu hvort viðkomandi hafði hugmynd um vilja Ælendinga eður ei. 
Þeim sem gengur vel og líður vel hlýtur að hafa stolið einhverju frá Ælendingi og skal refsað í samræmi við það. 
Hver sá sem er stærri og meiri en Ælendingur á einhvern hátt skal umsvifa- og undantekningalaust smækkaður með öllum ráðum. 
Öllum sem á einhvern hátt eru frábrugðnir Ælendingum í útliti og/eða hugsunarhætti skal vísað úr landi án tafar. 
Ælendingur ákveður hvað er satt. 
Þegar Ælendingur segir að hann sé ósýnilegur þá er hann það. 
Ælendingur ræður alltaf, sama hvað hver segir og hversu margir kunna að segja það, enda kemur það málinu ekkert við. 
Ælendingur er eyja og hefur þar af leiðandi ekki áhuga á öðrum en sjálfum sér. 
Ælendingar fara alltaf stystu leiðina. 
Ælendingur getur aldrei haft það svo gott að hann megi ekki kvarta. 
Þeir sem ekki eru sáttir við stjórnarskrá Ælands eru ekki Ælendingar og ber því að fara eftir þessari löggjöf og virða hana í einu og öllu. 
Ælendingum er hins vegar frjálst að túlka hana eftir eigin höfði. 
Nei, það eru engar mótsagnir í 15. grein. Asni.