8.9.11

Yfirstrikaðir staðir 35
Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsíngum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vita að okkur sé nokkur vorkun í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspillt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við ísland að því er snertir spillingu lands af mannavöldum. 

Menn komu hér upphaflega að ósnortnu heiðalandi sem var þéttvaxið viðkvæmum norðurhjaragróðri, lýngi og kjarri, og sumstaðar hefur nálgast að vera skógland, hér var líka gnægð smárra blómjurta, og mýrar vaxnar háu grasi, sefi og stör, morandi af smákvikindum allskonar og drógu að sér fugla svipað og Þjórsárver gera enn þann dag í dag. 

Mart bendir til þess að fólk er hér settist að hafi litið á náttúru Íslands einsog bráð sem þarna var búið að hremma. Skynbragð á fegurð lands var ekki til í þessu fólki. Slíkt kom ekki til skjalanna fyren þúsund árum eftir að híngað barst fólk. Á þrettándu öld skrifar Snorri Sturluson bók um eitt fegursta land heimsins, Noreg, rúmt reiknað 1000 blaðsíður, án þess séð verði að höfundi hafi verið kunn, aukin heldur meir, sú hugmynd að fallegt sé í Noregi. Orðið fagur á íslensku þýddi reyndar bjartur áður fyrri. Sú hugmynd að náttúran sé fögur er ekki runnin frá sveitamönnum, heldur fólki úr stórborgum seinni tíma, og náði loks til okkar íslendínga úr Þýskalandi gegnum Danmörku í tíð afa okkar. Náttúra verður auðvitað ekki falleg nema í samanburði við eitthvað annað. Ef ekki er til nema sveit er náttúran ekki falleg. „Óspilt náttúra" er því aðeins falleg nú á dögum að hún sé borin saman við borgir þángað sem menn hafa flúið af því sveitin veitti þeim ónóga lífsafkomu, og búa þar nú við vaxandi óhægindi, sumstaðar einsog í víti.

Halldór Laxness: Hernaðurinn gegn landinu

No comments:

Post a Comment