6.9.11

Yfirstrikaðir staðir 9



Músin sem fór í sveitaferð

Sunnudag einn ákvað húsamús að heimsækja hagamús í sveitina. Hún faldi sig í lest sem hagamúsin hafði sagt henni að taka, en frétti þá fyrst að á sunnudögum stoppaði lestin hreint ekki í Beddatúni. Húsamúsin gat því ekki farið úr lestinni í Beddatúni og tekið þaðan rútuna til Síðberjamóta þangað sem hún átti að hitta hagamúsina. Raunar ferðaðist húsamúsin alla leið til Miðborgar og þar beið hún í þrjár klukkustundir eftir lest til baka. Þegar hún kom í Beddatún komst hún að því að síðasta rútan til Síðberjamóta hafði þegar lagt af stað. Hún hljóp og hljóp og hljóp uns hún náði loks rútunni og gat laumast um borð. En þá var þetta hreint ekki rútan til Síðberjamóta. Þessi rúta var á leið í þveröfuga átt, um Pelalund og Gróm til staðar sem hét Vimpubær. Þegar rútan nam loks staðar stökk húsamúsin frá borði út í grenjandi rigningu og komst að því að engar rútur voru til nokkurra staða. „Fari það hoppandi sem!“ sagði húsamúsin og gekk alla leið heim til borgarinnar.

Boðskapur: Ekki fara neitt, það fer ágætlega um þig þar sem þú ert. 

 James Thurber. Íslensk þýðing: Ólafur S. Ólafsson.

1 comment:

  1. 1. Breyttu sögunni í teiknimyndasögu.

    2. Semdu þína eigin dæmisögu.

    3. Rökfærsla: „Það er öruggast að fara sem minnst.“ Finndu rök með eða á móti og myndaðu þér afstöðu.

    4. Tónlist: Semdu ljóð um þessa sögu. Notaðu rím. Þú mátt líka semja lag við ljóðið.

    5. Fróðleikur: Dæmisögur eru vinsæl leið til að miðla viðhorfum. Frægustu dæmisögurnar eru úr Biblíunni og svo dæmisögur Æsóps. Finndu nokkrar dæmisögur og endursegðu.

    6. Annað. Hvað viltu gera?

    ReplyDelete